Upptaka af fundinum

 

Íslensk erfðagreining efnir til opins fræðslufundar fyrir almenning í tilefni af því að Íslendingabók hefur tekið stakkaskiptum. Fundurinn er haldinn í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, laugardaginn 10. nóvember, klukkan 13:00. 

Þar mun Kári Stefánsson fjalla um Íslendingabók sem verkfæri við vísindarannsóknir,

Guðrún Nordal forstöðumaður Árnastofnunar flytur erindi sem hún nefnir: Með ættfræði á heilanum,

Ármann Jakobsson rithöfundur sem flytur erindið, „Ég em son Örgumleiða Geirólfssonar gerpis,“ Til hvers eru allar þessar ættartölur í fornum sögum?

Íslendingabók er mikilvægt verkfæri við erfðarannsóknir Íslenskrar erfðagreiningar. Hún var gerð aðgengileg á vefnum árið 2003 til að þakka þjóðinni fyrir þann stuðning sem hún hefur sýnt Íslenskri erfðagreiningu en tugir þúsunda landsmanna hafa tekið þátt í vísindarannsóknum á vegum hennar. Þjóðin tók framtakinu vel og Íslendingabók er nú ein af vinsælustu vefsíðum á Íslandi með um 140 þúsund heimsóknir á mánuði enda er þjóðin þekkt fyrir mikinn ættfræðiáhuga.

Íslendingabók lítur nú dagsins ljós í nýjum búningi sem hentar bæði símum og spjaldtölvum. Leitarkerfið hefur verið einfaldað, hægt er að leita bæði eftir nafni og texta, til dæmis, starfsheiti eða bæjarheiti. Þá geta notendur sett inn myndir af sér og ættingjum eða aðrar myndir sem tengjast sögu ættarinnar og  greinar um sig sjálfa eða nána, látna ættingja.

Leitarforrit síðunnar sem innihalda tölfræði hafa notið mikilla vinsælda. Núna uppfærir vefurinn sjálfkrafa upplýsingar um elstu núlifandi ættingja, nýjustu barnsfæðingar og næstu afmæli skyldmenna,

Með þessari breytingu verður vefurinn mun persónulegri heimild um ættir og fjölskyldur og vonandi til mikillar gleði fyrir notendur sína.

 

 

Deila!