ÍSLENSK ERFÐAGREINING FAGNAR 20 ÁRA AFMÆLINU MEÐ SAMSTARFSFÓLKI

Íslensk erfðagreining fagnaði 20 ára afmæli sínu með fjölsóttri vísindaráðstefnu, föstudaginn 30. september.

Ráðstefnustjóri var Myles Axton, ritstjóri Nature Genetics, sem er leiðandi tímarit í erfðafræði.

Fyrsta fyrirlesturinn flutti Kári Stefánsson. Hann rifjaði upp atvik úr viðburðaríkri sögu fyrirtækisins og baráttuna sem öflugt lið samstarfsfólks háði við að koma á fót erfðarannsóknum á heimsmælikvarða með mikilli þátttöku íslensku þjóðarinnar. Hann nefndi einnig dæmi um uppgötvanir sem þegar nýttust til framþróunar í heilbrigðisvísindum.

Þrír ræðumenn fjölluðu um erfðafræðirannsóknir og starfsemi heilans. Ole A. Andreassen, prófessor við Háskólann í Osló flutti fyrirlestur sem hann nefndi „erfðafræðibyltinguna i geðlæknisfræði“. Tomas Olsson, prófessor í taugalæknisfræði við Karolínsku stofnuninni í Stokkhólmi ræddi um áhrif umhverfis og gena á MS sjúkdóminn og Mark Daly, prófessor við Harward háskóla, fjallaði um gen og einhverfu.

Oluf Borbye Pedersen, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, talaði um örverur og sambýli þeirra við manninn og hugsanleg áhrif á starfsemi gena. Síðust ræðumanna var Camilla Stoltenberg, forstjóri Norsku Lýðheilsustofnunarinnar og gerði að umtalsefni mikilvægi mannerfðafræðinnar i faraldsfræði og norrænt samstarf í því sambandi.

Öllum ræðumönnum bar saman um að verk Kára Stefánssonar og samstarfsmanna hans væri einstakt, bæði að gæðum og vöxtum. Myles Axton, ritstjóri Nature Genetics benti á að á 12 árum hefði Íslensk erfðagreining birt 111 greinar í tímariti hans einu saman, eða um fimm af hundraði efnis í ritinu á tímabilinu.

Ráðstefnan var haldin í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar og hana sóttu hátt á þriðja hundrað vísindamanna, þ.á.m. fjöldi samstarfslækna frá Landspítalanum og öðrum heilbrigðisstofnunum landsins og sérfræðingar frá rannsóknastofum og skólum, einkum Háskóla Íslands.

 

UPPTÖKUR FRÁ AFMÆLISRÁÐSTEFNU ÍSLENSKRAR ERFÐAGREININGAR

Um greinar og uppgötvanir Íslenskrar erfðagreiningar

Niðurstöður Íslenskrar erfðagreiningar hafa birst í yfir 400 greinum í helstu vísindatímaritum heims. Tíu starfsmenn hafa verið á listanum yfir 200 áhrifamestu vísindamenn samtímans í erfða- og sameindalíffræði, sem fjölmiðlunarfyrirtækið Thomson Reuters birtir reglulega.

Starfsmenn ÍE hafa fundið mikilvæga erfðabreytileika sem tengjast tugum algengra sjúkdóma, frá sykursýki til krabbameina. Fjöldi þessara uppgötvana er þegar nýttur til þróunar nýrra lyfja, t.d. við hjartasjúkdómum og Alzheimer

Hin mikla þátttaka landsmanna og stöðugar framfarir í greiningu erfðaupplýsinga hafa gefið vísindamönnum Íslenskrar erfðagreiningar meiri og dýpri skilning á erfðaeinkennum heillar þjóðar en fyrirfinnst í nokkru öðru landi.

Í læknavísindum er sífellt meiri áhersla lögð á úrræði sem miðast við séreinkenni hvers og eins. Fundvísi vísindamanna ÍE á tengsl erfða og sjúkdóma er framlag til slíkrar læknisfræði.

Á vefnum okkar er hægt er að fræðast um valdar greinar frá upphafi.