Íslensk erfðagreining hlaut UT-verðlaun Ský  2021 en þau voru afhent á ráðstefnu UTmessunnar í beinni útsendingu. Það var  Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-,  iðnaðar- og nýsköpunarráðherra  sem afhenti verðlaunin og tóku Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Gísli Másson framkvæmdastjóri upplýsingatæknisviðs Íslenskrar erfðagreiningar við verðlaunagripnum.

Í rökstuðningi valnefndar segir meðal annars:
„Framlag Íslenskrar erfðagreiningar í heimsfaraldrinum Covid-19 við raðgreiningu veirusýna er einstakt. Vinna starfsmanna við skimun, lán á tækjabúnaði og starfsaðstöðu er ómetanleg á tímum alheimsfaraldurs ásamt öðru framlagi Íslenskrar erfðagreiningar á þessum skrítnu tímum. Tæknigeta og þekking innan Íslenskrar erfðagreiningar er eftirtektarverð hefur komið Íslendingum til góða í gegnum árin.

Slagorð fyrirtækisins; „Þekking í allra þágu“ er svo sannarlega rétt ef hugað er að því hvað Íslensk erfðagreining hefur gert í gegnum árin. Þannig hefur erfðagreining á orsökum margra alvarlegustu sjúkdóma mannkyns opnað möguleika á að bæta líf og heilsu. Þar má nefna krabbamein, sykursýki, og hjartasjúkdóma. Sérfræðingar fyrirtækisins standa framarlega í rannsóknum og eru meðal áhrifamestu vísindamanna í heiminum og samstarfsnet þeirra víðtækt. Framlag Íslenskrar erfðagreiningar til baráttunnar gegn COVID-19 hefur gert það að verkum að Ísland er í fremstu röð þeirra ríkja sem hafa náð mestum árangri. Strax í byrjun lagði fyrirtækið til tækjabúnað og mannafla til að það mætti skima sem flesta, bæði þá sem voru með einkenni, þá sem tilheyrðu áhættuhópum og stikkprufur úr samfélaginu. Ísland er eina landið í heiminum sem hefur raðgreint öll jákvæð sýni og þannig búið til þekkingu sem hefur skipt sköpum í baráttunni við farsóttina. Auk þess unnu vísindamenn fyrirtækisins að því að túlka þessa þekkingu þannig að hún nýttist heilbrigðisyfirvöldum sem best. “

Deila!