Íslensk erfðagreining (ÍE) sendir í þessari viku yfir eitt hundrað þúsund Íslendingum boð um þátttöku í samanburðarhópi fyrir rannsóknir fyrirtækisins. Þetta er landsátak undir yfirskriftinni: „Útkall – í þágu vísinda“ og er gert í samstarfi við Slysavarnafélagið Landsbjörg. Meðlimir björgunarsveitanna munu sækja gögnin heim til þátttakenda og ÍE styrkir Landsbjörg í staðinn með 2.000 krónum fyrir hvern þann sem tekur þátt.

Yfir 120 þúsund Íslendingar hafa þegar lagt hönd á plóginn
Með átaki þessu hyggst ÍE efla rannsóknir sínar, en fyrirtækið hefur þegar fundið breytileika í erfðaefni mannsins sem tengjast áhættu á fjölda algengra sjúkdóma. Tugþúsundir Íslendinga hafa þegar svarað kallinu þegar samstarfslæknar ÍE hafa boðið fólki þátttöku í rannsóknum á einstökum sjúkdómum. Alls hafa fleiri en 120.000 landsmenn þegar lagt hönd á plóginn.

Tengsl erfðabreytileika við sjúkdóma finnast með því að bera erfðaefni sjúklinga saman við erfðaefni heilbrigðra. Þeim mun stærri sem hóparnir eru, því nákvæmari verða niðurstöðurnar. Þess vegna efnum við til þessa viðamikla átaks þar sem björgunarsveitirnar munu heimsækja tugþúsundir heimila í landinu.

Þeir sem boðið er í samanburðarhópinn eru eldri en 18 ára, hafa ekki tekið þátt í rannsóknum ÍE áður og eru valdir með það fyrir augum að hópurinn gefi sem besta og breiðasta mynd af þjóðinni. Auk samanburðar við sjúklingahópa verður tíðni tiltekinna erfðabreytileika könnuð almennt meðal Íslendinga og samanburður gerður við aðrar þjóðir. Boðsgögnunum fylgja nákvæmar upplýsingar um verkefnið, samþykkisyfirlýsingar, munnspaðar og leiðbeiningar um sýnatöku en þátttakendur taka sjálfir lífsýni úr munni sínum.  Rannsóknirnar hafa hlotið leyfi Vísindasiðanefndar og Persónuverndar.

Í fararbroddi á heimsvísu í rannsóknum á tengslum erfða og sjúkdóma
ÍE er í fararbroddi í rannsóknum á tengslum erfða og heilsu. Á rúmum einum og hálfum áratug hefur fyrirtækið birt á fjórða hundrað vísindagreina sem vísa veginn við leitina að orsökum sjúkdóma. Þar er meðal annars að finna krabbamein, hjarta- og æðasjúkdóma og sykursýki. Þannig er leitað þekkingar sem getur nýst til nýrra og betri meðferðarúrræða og forvarna.

Grundvöllurinn að hinum góða árangri fyrirtækisins er stuðningur og þátttaka almennings í starfsemi þess. Vitneskja þjóðarinnar um sögu sína, ættir og uppruna gefur síðan vísindamönnum ÍE einstaka möguleika til að vinna mikilvægar upplýsingar úr þessum efnivið. Þannig hefur Ísland tekið forystu í rannsóknum á erfðafræði mannsins.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar:
„Árangur okkar byggist á þrennu:  Þátttöku þjóðarinnar í rannsóknunum, samstarfinu við lækna og heilbrigðisstofnanir landsins og vísindamönnunum okkar sem eru óþreytandi snillingar við leitina að skýringum á muninum á heilbrigði manna og sjúkdómum. Með enn meiri þátttöku heilbrigðra Íslendinga aukast líkurnar á að vísindin finni úrræði til að glíma við sjúkdóma sem þeir eða ættingjar þeirra geta fengið síðar á lífsleiðinni.“
Hörður Már Harðarson, formaður Landsbjargar:
„Landsbjörg eru stærstu sjálfboðaliðasamtök þjóðarinnar og óvíst að nokkur annar aðili hefði bolmagn til að fara í svona stóra aðgerð sem felst í því að ganga á nokkrum dögum í flest hús á Íslandi. Auk þess að efla mikilvægar rannsóknir íslenskra vísindamanna þá getur Útkallið, ef það heppnast vel og fólk leggur þessu lið, reynst ein stærsta fjáröflun Landsbjargar fyrr og síðar.“

Deila!