Hvað geta vísindin kennt okkur um upptök illskunnar? Er hægt að sjá illmenni sem manneskjur sem stríða við fötlun eða eru vanhæfar til að skilja og tjá tilfinningar? Þetta er umfjöllunarefnið á fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar, sem haldinn verður fimmtudaginn 6. júní, klukkan 17.
Sálfræðingurinn Simon Baron-Cohen heldur erindi en hann hefur reynt að svara þessum spurningum á vísindalegan hátt í bókum sínum, til að mynda, i bókinni Zero Degrees of Empathy – A New Theory of Human Cruelty þar sem hann reynir að grafast fyrir um upptök þess sem við köllum illsku með því að nálgast hana sem dvínandi samkennd (empathy erosion) en hæfileikinn til að geta fundið til með öðrum, bæði í gleði og sorg er einn mikilvægasti þáttur mennskunnar.
Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar kynnir Simon Baron- Cohen til leiks og heldur stutt erindi um erfðir og illsku að loknum fyrirlestrinum.
Samkennd er bæði meðfæddur eiginleiki en líka uppeldislegur. Þeir sem sýna litla samkennd geta verið minna hæfir til þess sökum erfða eða röskunar á heilastarfsemi. Þá geta þeir hafa orðið fyrir áföllum í bernsku, til dæmis vanrækslu, ofbeldi eða misnotkun sem hefur valdið skaða í tilfinningalífinu. Samkvæmt kenningum Simons Barons Cohens stafar dvínandi samkennd yfirleitt af því að fólk hlutgerir aðrar lifandi verur. Hann skoðar útbreiðslu samkenndarinnar sem róf þar sem fólk getur haft óvanalega mikið, í meðallagi eða óvanalega lítið af samkennd  Hann leggur áherslu á að þeir sem sýna af sér mesta grimmd eru ekki ófærir um að skynja hvernig öðrum líður, þeir geta lesið tilfinningar annarra og notfært sér þær til að ná markmiðum sínum. Þeir eru hinsvegar ófærir um að finna til með öðrum og bregðast við með því að veita huggun.Þannig er til dæmis reginmunur á þeim og einhverfri manneskju sem á í basli með að lesa tilfinningar annarra en finnur til þegar hún skynjar að öðrum líður illa og reynir þá að bregðast við. Manneskja sem er með andfélagslega persónuleikaröskun, til að mynda siðblindingi, er laus við samkennd. Hún skynjar þessa vanlíðan en finnur ekki til og reynir ekki að bregðast við nema þá í eiginhagsmunaskyni.
Verstu illvirkin verða þó ekki skýrð einungis með dvínandi samkennd heldur koma margir þættir þar við sögu, eins og Simon Baron-Cohen hefur komið inn á í bókum sínum og pistlum og mun vafalaust gera í fyrirlestri sínum.

Dagskrá:
17:05 Samkennd við frostmark
Simon Baron Cohen sálfræðingur og prófessor í þróunarsálfræði við Cambridge-háskólann
18:00 Erfðir og illska
Kári Stefánsson læknir og forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar
Aðgangur er ókeypis, Allir velkomnir.
Fundurinn verður í beinni útsendingu á Facebooksíðu Íslenskrar erfðagreiningar.

Deila!