Hæstiréttur Íslands hefur í dag ógilt ákvörðun Persónuverndar frá 23. nóvember 2021 um meint brot Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) og Landspítala við söfnun og vistun blóðsýna í upphafi heimsfaraldurs COVID-19. Hæstiréttur sneri þar með við dómi Landsréttar og lagði til grundvallar að á tímabilinu 3-7. apríl 2020  hafi meðferð og varðveisla blóðsýna hjá ÍE alfarið verið í þágu Landspítalans.

Hæstiréttur staðfestir enn fremur að Persónuvernd hafi farið inn á valdsvið Vísindasiðanefndar með því að leggja sjálfstætt mat á hvort blóðsýnatakan hafið verið skv. lögum um vísindarannsóknir, þegar Vísindasiðanefnd hafði komist að gagnstæðri niðurstöðu um sama efni.  

Mikilvæg niðurstaða sem varðar lögsögu vísindarannsókna til framtíðar 

ÍE telur mjög mikilvægt að úr þessu hafi verið skorið og nú sé ljóst hvaða stjórnvald fari með lögsögu um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði til framtíðar og að Persónuvernd geti ekki tekið ósamrýmanlegar stjórnvaldsákvarðanir um atriði sem að lögum  falla undir valdsvið og lögsögu Vísindasiðanefndar. Einnig er mikilvægt að það liggi ljóst fyrir hver séu skil heilbrigðis- og sóttvarnarráðstafana annars vegar og vísindarannsókna hins vegar, sér í lagi þegar aðsteðjandi heilbrigðisógn steðjar að.  

Hæstiréttur telur að verulegar brotalamir hafi verið í málsmeðferð Persónuverndar. Fram kemur í dómi Hæstaréttar að það hafi ekki verið samrýmanlegt rannsóknarskyldu Persónuverndar að byggja ákvörðun sína að verulegu leyti á misræmi sem að Persónuvernd taldi vera í gögnum málsins með þeim afleiðingum að ÍE og Landspítali bæru halla af. Dómurinn telur þetta brjóta gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Íslensk erfðagreining svaraði kalli stjórnvalda

ÍE fagnar niðurstöðu Hæstaréttar Íslands. Mikilvægt er að einkafyrirtæki sem svara kalli stjórnvalda í almannavarnaástandi geti treyst því að stjórnvöld hafi fyrir því lögmætar heimildir.  Ekki síst þegar fyrirtækið leggur til á annað hundrað starfsmanna, sérhæfðan og öflugan tækjabúnað, aðstöðu og vísindaþekkingu án endurgjalds.

ÍE og starfsfólk þess svaraði strax kalli stjórnavalda á hættulegum tímum. Það er því mikill léttir fyrir alla þá sem þar komu að verki, að nú hafi verið staðfest að sú vinna var lögmæt og framkvæmd á réttum forsendum.

Deila!