17 deCODE genetics staff  participated in the 2025 Reykjavik Marathon.

Sautján starfsmenn Íslenskrar erfðagreiningar tóku þátt í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka þann 23. ágúst og hlupu til styrktar ýmsum góðgerðarmálum. Íslensk erfðagreining hét 40.000 krónum á hvern starfsmann sem tók þátt í hlaupinu.

Í heildina söfnuðu starfsmenn ÍE samtals 1.159.996 krónum, sem runnu til fjölbreyttra góðgerðafélaga.

„Reykjavíkurmaraþonið er einstakur viðburður sem gefur okkur tækifæri að styrkja góð málefni um leið og við hlaupum í þessu skemmtilega hlaupi“, segir Dr. Magnús Karl Magnússon, vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu. „Ég hljóp til styrktar minningarsjóðs eiginkonu minnar heitinnar, Ellýjar Katrínar Guðmundsdóttur. Hún lést á síðasta ári eftir að hafa greinst 51. árs með snemmkominn Alzheimer sjúkdóm.“

Dr. Unnur Þorsteinsdóttir, annar framkvæmdastjóra Íslenskrar erfðagreiningar, segir mjög ánægjulegt að sjá starfsfólk fyrirtækisins taka þátt í þessu einstaka góðgerðahlaupi og að fyrirtækinu væri bæði ljúft og skylt að leggja sitt að mörkum. Reykjavíkurmaraþonið snúist ekki eingöngu um þrautseigju og liðsheild heldur sé einnig einstakur vettvangur til að styðja góð og mikilvæg málefni víðs vegar um landið.

Deila!