Upptaka af fundinum

Þriðjungur kvenna hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi í námi eða starfi, þar af um 7% í núverandi starfsumhverfi, samkvæmt fyrstu niðurstöðum rannsóknarinnar Áfallasaga kvenna.

Áfallasaga kvenna er vísindarannsókn á vegum Háskóla Íslands sem unnin er í samvinnu við Íslenska erfðagreiningu en markmið hennar er að varpa ljósi á heilsufar kvenna í kjölfar áfalla. Rannsóknin hófst fyrir ári og hingað til hafa um 30.000 konur tekið þátt en opið verður fyrir skráningar nýrra þátttakenda til 1. maí.

Fyrstu niðurstöður voru kynntar á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars, í húsi Íslenskrar erfðagreiningar í Reykjavík.

Konur í ferðaþjónustu í meiri áhættu

Hættan á kynferðislegri áreitni er nokkuð breytileg eftir starfsumhverfi.  Þannig virðast til dæmis konur í flug- og ferðaþjónustu en vera í nokkuð meiri áhættu en margar aðrar starfsstéttir. 


„Við erum komin skammt á veg í þessari greiningu en fyrstu niðurstöður gefa til kynna að hátt hlutfall kvenna verður fyrir slíkri áreitni í námi eða starfi,“ segja Arna Hauksdóttir, og
Unnur Anna Valdimarsdóttir prófessorar við Læknadeild Háskóla Íslands og aðstandendur rannsóknarinnar.

Um fimmtungur kvenna með merki um áfallastreituröskun

Samkvæmt fyrstu niðurstöðum er ríflega fimmtungur þátttakenda með sterk einkenni um áfallastreituröskun en vísbendingar eru um að slík einkenni geti haft í för með sér langvarandi heilsubrest. Konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi á lífsleiðinni eru í mestri hættu á að þróa með sér áfallastreituröskun en einnig eru konur sem lent hafa í öðrum félagslegum áföllum á borð við einelti eða framhjáhaldi í töluvert aukinni áhættu.

 „Tíðni áfallastreituröskunar mælist nokkuð hærri í okkar þátttakendahópi en í fyrri rannsóknum. Ástæðan er margþætt en hana má meðal annars rekja til þess að við einskorðum okkur ekki við áföll sem ógna beint lífi einstaklinga heldur tekur rannsóknin einnig til félagslegra áfalla og áhrifa þeirra á einkenni áfallastreitu. Við erum virkilega þakklát fyrir hversu góðar viðtökur rannsóknin hefur fengið og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu vel núverandi þátttakendahópur endurspeglar íslensku kvenþjóðina með tilliti til aldurs, búsetu, menntunar og tekna.“ segir Unnur Anna.

Hægt verður að taka þátt í rannsókninni til 1. maí nk. á vefnum afallasaga.is.

Deila!