Upptaka af fundinum.

Erfðafræðin hefur fært okkur verkfæri til að greina erfðabreytileika sem hafa áhrif á þætti í starfsemi frumna og líffæra sem hugsanlega er hægt að hafa áhrif á með lyfjum.

Þekking úr erfðafræðirannsóknum nýtist nú þegar til að þróa ný og virkari lyf.  Á grundvelli uppgötvana Íslenskrar erfðagreiningar er til dæmis unnið að þróun lyfja við Alzheimerssjúkdómnum.

Íslensk erfðagreining býður almenningi á fræðslufund um erfðavísindi og lyf laugardaginn 16. mars, klukkan 13:00.

Jón Snædal.

Jón Snædal öldrunarlæknir ætlar að fjalla um það hvernig erfðaupplýsingar gera okkur kleift að gera rannsóknir á nýjum lyfjum sem varla væru mögulegar annars.

En erfðafræðin hefur ekki bara aukið möguleika okkar við að þróa ný lyf heldur felast í henni margvísleg sóknarfæri í betri heilbrigðisþjónustu. Erfðaupplýsingar gera læknum kleift að veita sjúklingum meðferð sem er sérsniðin að hverjum og einum, til dæmis með markvissari lyfjagjöf.

Hilma Hólm.

Hilma Hólm hjartalæknir ætlar að fjalla um hvað erfðafræðin hefur kennt okkur um tengsl kólesteróls og kransæðasjúkdóms. Meðal annars ræðir hún af hverju lyf sem minnka vonda kólesterólið hafa áhrif á kransæðasjúkdóm en lyf sem auka góða kólesterólið gera það ekki og hvort erfðafræðin geti leiðbeint okkur um mataræði.

Hans Tómas Björnsson.

Hans Tómas Björnsson barnalæknir ræðir um Kabuki heilkenni, sjaldgæfan erfðasjúkdóm sem uppgötvaðist í gegnum háafkastaraðgreiningu fyrir 7 árum síðan en nú hefur hópur á hans vegum þróað mögulega meðferð. Hann mun einnig rekja fleiri dæmi um sjúkdóma þar sem greining einstaklinga í gegnum háafkastaraðgreiningu leiddi samstundis til meðferðarmöguleika sem annars hefðu ekki verið í boði.

Kári Stefánsson.

Kári Stefánsson  forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar ræðir hvernig má nota erfðir sjúkdóma til að meta líkur á svari við meðferð.

—————————

Hvar: Hús Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8.

Hvenær: Laugardaginn 16. mars, klukkan 1300 til 14.30.

Allir velkomnir.

Kaffiveitingar frá 12.30

Fundurinn verður í beinni útsendingu á Facebooksíðu Íslenskrar erfðagreiningar

Nánari upplýsingar veitir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir upplýsingafulltrúi ÍE í síma 894 1909.

Deila!