Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar (ÍE) og samstarfsfólk þeirra innan íslenska heilbrigðiskerfisins, Háskóla Íslands og Karolinska í Svíþjóð, hafa fundið  erfðabreytileika í FLT3 geninu sem eykur töluvert áhættuna á því að fá sjálfsónæmissjúkdóm í skjaldkirtil, en grein um rannsóknina birtist í Nature í dag. Erfðabreytileikinn tengist einnig öðrum sjúkdómum og hefur óvænt en þýðingarmikil áhrif á bæði genatjáningu og magn prótína.

Sjálfsónæmi í skjaldkirtli er algengasti sjálfsónæmissjúkdómurinn, en fimm prósent fólks fær hann einhvern tímann á lífsleiðinni. Sjúkdómurinn lýsir sér oftast í vanvirkum skjaldkirtli en stundum í ofvirkum skjaldkirtli, og leiðir gjarnan til ævilangrar meðferðar með skjaldkirtilshormóni.

Í rannsókninni voru arfgerðargögn frá ÍE og breska lífsýnabankanum skoðuð og rúmlega 30.000 einstaklingar með sjálfsónæmi í skjaldkirtli bornir saman við 725 þúsund einstaklinga án slíkrar greiningar, með víðtækri erfðamengisrannsókn.

Alls fundust 99 erfðabreytileikar sem tengjast sjúkdómnum, þar af 84 sem ekki var vitað af áður og 2 sem auka áhættuna umtalsvert. Áhrif erfðabreytileika í FLT3 geninu er þó merkasta uppgötvunin. Hann eykur áhættu á því að fá aðra sjálfsónæmissjúkdóma, bæði gigtsjúkdómana rauða úlfa (um 90%) og iktsýki (41%), og einnig celiac sjúkdóm (62%) sem einkennist af glútenóþoli. Allir þessir sjúkdómar eru algengari meðal kvenna og töluverður hluti þeirra sem greinast með þá fá einnig sjálfsónæmi í skjaldkirtil.

Vitað var að FLT3 getur stökkbreyst í vefjum þegar einstaklingur þróar með sér bráðamergfrumuhvítblæði (AML). Meðfæddi erfðabreytileikinn í FLT3 sem tengist sjálfsónæmissjúkdómum reyndist tvöfalda áhættuna á því blóðkrabbameini, en þó ekki á krabbameinum almennt.

Síðast en ekki síst er þennan breytileika að finna í svokallaðri innröð, en ekki þeim hluta erfðavísisins sem prótínið myndar. Alla jafna ætti slíkur breytileiki ekki að hafa áhrif á genatjáningu, en það kom í ljós að þessi breytileiki gefur engu að síður merki um að stöðva tjáninguna í um þriðjungi tilfella, og þá vantar þann hluta FLT3 viðtakans sem er nauðsynlegur til að hann komi boðum áleiðis. Þegar skoðuð voru áhrif breytileikans á magn 5000 annarra prótína í líkamanum kom í ljós að hann hefur áhrif á magn margra prótína, þó sérstaklega bindisameindarinnar fyrir FLT3 viðtakann, en þetta par gegnir lykilhlutverki í þroskun blóðfrumna sem eiga þátt í myndum bráðafrumuhvítblæðis og ónæmissvörun.

Rannsóknin eykur verulega skilning á meinmyndun sjálfsónæmis í skjaldkirtli. Niðurstöðurnar hafa ennfremur breiðari skírskotun, því þær leiða í ljós að erfðabreytileiki í innröð í geni getur breytt prótíni og haft áhrif á mörg önnur prótín í líkamanum.

Deila!