Visindamenn Íslenskrar erfðagreiningar hafa fundið nýtt lífmerki (biomarker) fyrir slitgigt  sem getur hjálpað til við að greina sjúkdóminn og gefið til kynna hversu alvarlegur hann er.

Í grein sem birtist í Arthritis & Rheumatology greina vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar frá nýju lífmerki (CRTAC1) fyrir slitgigt en tilvist þess segir ekki bara til um slitgigt í hnjám, höndum og mjöðmum, heldur getur hún líka sagt til um hvort það sé þörf á liðskiptaaðgerð.

Slitgigt hrjáir um 300 milljónir manna um allan heim. Það eru engin sérhæfð lyf  í meðferð við slitgigt en það ræðst að mestu af því að það hefur vantað gott lífmerki til að hjálpa til við sjúkdómsgreiningu og til að velja sjúklinga í klínískar rannsóknir og fylgjast með þróun sjúkdómsins. Fólk sem er með meira magn af CRTAC1 í blóðvökva er í meiri hættu að þróa með sér alvarlegan sjúkdóm. CRTAC1 er mun betra lífmerki en önnur sem hafa fundist og tengjast slitgigt. „Þetta eru mjög hvetjandi niðurstöður og gætu verið fyrstu skrefin í átt að því að þróa klínísk próf fyrir slitgigt,“ segir Unnur Styrkársdóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og fyrsti höfundur rannsóknarinnar. „Nýtt lífmerki eins og CRTAC, getur aukið verulega möguleikana á því að hægt verði að þróa nýtt lyf við slitgigt, en heimurinn bíður eftir slíku lyfi,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Deila!