Íslensk erfðagreining hélt fræðslufundinn Hvað er hugsun fyrir fullu húsi þann 28. september, þegar rúmlega 600 manns mættu í höfuðstöðvar fyrirtækisins til að hlusta á fjóra fyrirlesara nálgast þessa spurningu með ólíkum hætti og fjöldi fólks fylgdist einnig með í beinu streymi af fundinum.

Jörgen Pind prófessor emeritus í taugasálfræði

Jörgen L. Pind greip niður heimspeki nýaldar frá Descartes til Johns Stuart Mill, þar sem liggja rætur hinnar „sálarlausu sálfræði“ sem varð til á síðari hluta 19. aldar og velti upp hugmyndum um hugsun eins og þær birtast þar. Þá sagði hann frá  rannsóknum á hugsun, einkum þeirra Tverskys og Kahnemanns, en Kahnemann hlaut Nóbelsverðlaun fyrir þær árið 2002. Loks fjallaði Jörgen um vitundina og leggur út frá tveimur tilvitnunum í skrif Kierkegaards og horfir frá þeim til nútímalegra hugtaugavísinda.

Nanna Briem yfirlæknir á LSH

Nanna Briem nálgaðist hugsun frá sjónarhóli geðlæknisins og veltir upp þeim breytingum sem geðrænir sjúkdómar valda á hugsun og hvernig þær stjórna líðan okkar. 

Jón Kalman Stefánsson rithöfundur

Jón Kalman Stefánsson lét gamminn geysa um hugsun eða öllu heldur hugsunarleysi ljóðsins, heila á hestbaki, halastjörnur, stangveiði, ljósakrónur, spámanninn Esekíel og James Webb-sjónaukann, og gerði atlögu að því að útskýra hvers vegna það eru sextán mánuðir í árinu.

Kári Stefánsson

Kári Stefánsson fjallaði um það hvernig hugsanir ráða flestu í okkar lífi (jafnvel samsetningu líkama okkar) þótt við höfum næstum enga hugmynd um það hvað hugsun sé eða hvernig hún verður til.

Hér má nálgast fundinn í heild sinni og hvern fyrirlestur fyrir sig.

Deila!