Vísindamenn hjá Íslenskri erfðagreiningu hafa þróað líkan sem styðst við mælingar á eggjahvítuefnum í blóði og spáir fyrir um hversu langt fólk á eftir ólifað  af mun meiri nákvæmni en líkön sem styðjast við hefðbundna áhættuþætti.

Fjallað er um rannsóknina í vísindaritinu Communications Biology.

Gögn um 22.913 einstaklinga í lífsýnasafni ÍE voru skoðuð en 7.061 höfðu látist á rannsóknartímabilinu. Spálíkanið studdist einungis við upplýsingar um aldur, kyn og mælingar á eggjahvítuefnum en gat spáð fyrir um tíma til dauða af meiri nákvæmni en líkön sem byggjast á þekktum áhættuþáttum. Þannig var hægt með líkaninu að finna þau 5% úr hópi þátttakenda á aldrinum 60 til 80 ára, sem voru með 88 prósent líkur á því að deyja innan 10 ára, og einnig þau 5% sem voru  einungis með 1% líkur.

Þeir sem mældust líklegir til að eiga skammt eftir ólifað voru einnig ekki eins handsterkir og hinir og stóðu sig verr á þrekprófi og sýndu lakari árangur í hugrænum verkefnum.

„Með líkaninu er hægt að meta almenna heilsu nokkuð vel út frá einni blóðprufu,“ segir Þjóðbjörg Eiríksdóttir vísindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og einn höfunda rannsóknarinnar.

„Þetta er flott en  líka fremur ógnvekjandi en vonandi kemur þetta að gagni,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda á greininni. Þetta sýnir okkur að almennt heilsufar okkar endurspeglast í eggjahvítuefnum í blóði.

Deila!