Á líflegum fræðslufundi Íslenskrar erfðagreiningar í Vatnsmýrinni, þann 9. nóvember voru kynntar niðurstöður nýrrar vísindarannsóknar sem sýnir að 4 prósent Íslendinga eru með meðferðartæka erfðabreytileika sem eykur líkur á sjúkdómum svo sem krabbameinum og hjartasjúdómum og styttir lífslíkur. Flestir þeirra eru sér óafvitandi um breytileikana og geta því ekki sótt sér meðferð eða breytt lífsvenjum sínum til að draga úr líkum á sjúkdómi.

Íslenska þjóðin á ógrynni af erfða- og heilbrigðisupplýsingum sem gerir henni kleift að hefja persónumiðaðar lækningar án mikils undirbúnings. Þá væri hægt að nálgast fólk með vitneskju um slíka erfðabreytileika og bjóða því uppá meðferð og ráðgjöf. Þetta var rætt á fundinum en erindi héldu, Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Runólfur Pálsson forstjóri LSH, Steinunn Markúsdóttir, Hrefna Eyþórsdóttir og Þórdís Erla Ágústsdóttir, BRCA-arfberar og Engilbert Sigurðsson læknir og aðstandandi.

Willum Þór Þórsson tilkynnti um stefnubreytingu í þessum málum á fundinum en hann ætlar að leggja til í ríkisstjórn að stofnaður verði starfshópur til undirbúnings persónumiðuðum lækningum og samstarfi við ÍE um heilbrigðisupplýsingar. Líflegar umræður með þátttöku fundargesta voru í lokin.

 Hér er hægt að nálgast upptökur af fundinum.

Deila!