Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var í dag sæmdur hinum alþjóðlegu KFJ verðlaunum Ríkissjúkrahússins í Kaupmannahöfn. Verðlaunin eru veitt árlega til alþjóðlegs vísindamanns sem á í samstarfi við rannsóknarstofnanir sem heyra undir sjúkrahúsið.

Í tilkynningu frá stjórn Ríkissjúkrahússins segir að þegar Kári stofnaði Íslenska erfðagreiningu árið 1996 hafi enginn verið að ræða persónumiðaðar lækningar (Precision medicine) og áform fyrirtækisins hafi verið einsdæmi í heiminum. Rannsóknir hans hafi síðar leitt af sér aðferðir til að meta áhættu á lífshættulegum sjúkdómum, allt frá hjartasjúkdómum til krabbameina, sem hugsanlega megi bregðast við. Þá hafi uppgötvanir hans leitt til þróunar nýrra lyfja.

Henrik Ullum prófessor og deildarforseti í ónæmisfræðum á Ríkissjúkrahúsinu er einn þeirra sem tilnefndi Kára til verðlaunanna. Hann segir að ekki þurfi annað en að skoða yfirlit yfir vísindagreinar Kára til að átta sig á því hversu mikill brautryðjandi hann hafi verið í erfðavísindum. Hann segir samstarf Ríkissjúkrahússins og Íslenskrar erfðagreiningar gríðarlega mikilvægt en fyrirtækið hefur greint ríflega 300 þúsund sýni frá Dönum í tengslum við það. Núna sé hægt að fara fram með stór rannsóknarverkefni til hagsbóta fyrir sjúklinga framtíðarinnar.

Kári Stefánsson segir að raðgreining heilla erfðamengja svo og prótein mælingar í stórum stíl muni bylta læknisfræðinni á nokkrum árum. Rannsóknir eins og fyrirtækið sé að gera í samstarfi við Ríkissjúkrahúsið vegi þar þungt. Samstarfið við Ríkissjúkrahúsið sé forrréttindi og KFJ verðlaunin bendi til þess að það hafi farið vel af stað.

Deila!