Við getnað hlýtur barn helming erfðaefnis föður og helming erfðaefnis móður. Í rannsókn, sem Íslensk erfðagreining birti í dag í vísindatímaritinu Science, var leitað svara við spurningunni um hvort erfðabreytingar í þeim helming erfðaefnis foreldranna, sem ekki fer til barnsins, hafi áhrif á örlög þess.

Niðurstaðan er sú að svo er. Stóran hluta ævinnar eru börn svo háð foreldrum sínum að umhverfi uppvaxtarins hefur djúpstæð áhrif. Og þessi umheimur æskunnar mótast einmitt af erfðaefni foreldranna.

Vísindamennirnir nefna þetta erfðauppeldi.  Höfundur Njálu orðaði það svo að fjórðungi brygði til fósturs. Áður en Sigmundur Lambason vó Þórð fóstra Njálssona að áeggjan Hallgerðar sagði hann: „En eigi er kynlegt að Skarphéðinn sé hraustur því að það er mælt að fjórðungi bregði til fósturs.“

Í rannsókninni var notað erfðaefni þúsunda Íslendinga sem fæddust milli 1940 og 1983, og þar sem erfðaupplýsingar a.m.k. annars foreldris lágu fyrir. Athugun af þessu tagi er einstök í sinni röð og hana er hægt að gera á Íslandi vegna hinnar almennu þátttöku landsmanna í rannsóknastarfi ÍE.

Niðurstöðurnar sýna, að erfðaáhrif uppeldisins á börn ná ekki einungis til þátta eins og menntunar, heldur einnig heilsufars, s.s blóðfitu og sígarettureykinga. Og verkunin kann að vera mismikil eftir því hvort hún er rakin til móður eða föður. Einnig benda vísindamennirnir á að í fjölskyldu kunni að gæta áhrifa systkina þess einstaklings, sem var rannsakaður, svo og fyrri kynslóða. Rætur erfðaáhrifanna liggja því víða.

Niðurstöðurnar varpa nýju ljósi á tengsl erfða og umhverfis, sem oft eru taldir óháðir þættir. Fram að þessu hafa rannsóknir á ættleiðingum og eineggja tvíburum verið notaðar til að reyna að greina á milli áhrifa uppeldis og erfðaefnis barnsins. Í þessari rannsókn má segja að líta megi á þann hluta erfðaefnis foreldranna, sem ekki fluttist til barnsins, eins og erfðaefni ættleiðingarforeldra.

„Armur genanna, eins og réttvísinnar, er langur“, segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. „Þegar þau missa af tækifærinu til að fara beint í erfðaefni einstaklingsins við getnað, teygja þau sig milli kynslóða og koma áhrifum sínum til skila á þennan óbeina hátt. Að veita nýfæddu afkvæmi sínu skjól er öllum manneskjum meðfætt og enn einu sinni berast böndin að heilanum, sem við botnum ekkert í. Ef við gætum nú fundið hvaða erfðabreytur stuðla að umönnun ungviðis, værum við einu skrefinu nær því að skilja hvað gerir manninn að manni“.

Og Kári heldur áfram. „Og við erum minnt á að þrátt fyrir þann gríðarlega fjölda uppgötvana í erfðafræði, sem á síðasta áratug hafa verið gerðar með rannsóknum á einstaklingum, getur niðurstöðunum verið ábótavant, ef gögn um fjölskylduna eru ekki með í spilinu.“

Deila!