Í nýrri rannsókn sem birtist nýlega í Nature Communications varpa vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar nýju ljósi á mannlegan fjölbreytileika og sýna fram á að fjöldi frávika frá erfðamengi foreldra eykst með aldri bæði móður og föður.

Erfðamengi einstaklinga eru að langmestu leyti eins en sá litli munur sem er að finna á milli einstaklinga skapar mannlegan fjölbreytileika. Þennan mun er helst að finna í röðum sem kallast örtungl (microsatellite)  stuttum, endurteknum röðum af erfðaefni, sem ná yfir um þrjú prósent af erfðaefninu.

Erfðamengi einstaklingsins er að langmestu leyti blanda af erfðamengjum foreldranna en vísindamennirnir raðgreindu erfðamengi um 50 þúsund Íslendinga og 150 þúsund Breta og sýndu fram á að frábrigði frá  erfðamengjum foreldra má finna á að meðaltali 60 stöðum í erfðamenginu.

Auk þess að sýna fram á að fjöldi frábrigða eykst með aldri bæði móður og föður fundu vísindamennirnir erfðabreytileika sem fjölga þessum frábrigðum. 

Rannsóknir sem þessar eru líklegar til að varpa ljósi á frjósemi og sjúkdóma sem eru undir áhrifum þessara breytileika en þeir geta valdið, til dæmis, mörgum taugasjúkdómum og krabbameinum. 

Deila!