Á heimasíðunni Tóneyra.is er athyglinni beint að tón- og taktblindu en það eru raskanir sem einkennast af lagleysi og erfiðleikum við að skynja takt í tónlist. Nú býðst fólki að taka þátt í vísindarannsókn á vegum Íslenskrar erfðagreiningar þar sem markmiðið er að rannsaka erfðabreytileika sem hafa áhrif á tóneyra og taktvísi og tengsl þessara eiginleika við raskanir á borð við málþroskaröskun og lesblindu. Allir sem hafa náð átján ára aldri og eiga rafræn skilríki geta tekið þátt, svarað stuttum spurningalista og leyst verkefni á vefsíðunni. Þegar því er lokið fá þeir upplýsingar um frammistöðu sína og hvort hún bendi til tón- eða taktblindu.

Tónblindan er frekar sértæk röskun og hefur til dæmis ekki mikil áhrif á skynjun tónhæðar
í tungumálinu, einungis í tónlist. Taktblindan virðist að einhverju leyti
haldast í hendur við lesblindu og málþroskaraskanir en talið er að ónákvæmni í
úrvinnslu hljóðs í tímarúmi geti orsakað vandamál í skynjun á tali og takti.
Vísbendingar eru um að þjálfun byggð á takti í tónlist geti mögulega gagnast
börnum með málþroskaraskanir og lesblindu en ekkert er vitað um sameiginlega
erfðaþætti sem þessu tengjast.

Deila!