Í grein sem birtist í vísindatímaritinu Nature Genetics, 15. janúar 2018, (https://www.nature.com/articles/s41588-017-0031-6), er því lýst hvernig vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar  fóru að því að raða saman erfðamengi Hans Jónatans úr bútum af litningum 182 afkomenda. Hans Jónatan fæddist þræll árið 1784 á eyjunni St. Croix í Karabíska hafinu. Móðir hans hét Emilía Regína og var afrískur þræll á sykurplantekru Schimmelman fjölskyldunnar, en faðir hans er talin hafa verið af evrópskum ættum. Árið 1802 tókst Hans Jónatan að sleppa undan þrælahaldi með því að flýja til Djúpavogs, þar sem hann kvæntist íslenskri konu,  Katrínu Antoníusardóttur, og eignaðist með henni tvö börn. Frá þeim á Hans Jónatan nú fleiri en 700 afkomendur á Íslandi.

Með því að bera kennsl á afríska litningabúta 182 afkomenda Hans Jónatans, tókst rannsakendum að púsla saman um 38% af þeim litningum sem hann fékk frá móður sinni, Emilíu Regínu. Þetta er í fyrsta skipti sem tekist hefur að sækja erfðamengi löngu látins manns. Með samanburði á þessu endurraðaða erfðamengi við arfgerðir ýmissa hópa frá Afríku, sýndu rannsakendur fram á að uppruna Emilíu Regínu mætti rekja til þess svæðis í vestur Afríku þar sem nú eru ríkin Benín, Nígería og Kamerún. Á þessu svæði voru annað hvort Emilía Regína eða foreldrar hennar hneppt í þrældóm og flutt nauðug til St. Croix í Karabíska hafinu til að vinna á sykurekrum.

“Hingað til hefur verið nauðsynlegt að hafa aðgang að líkamsleifum til að greina erfðaefni úr löngu látnum einstaklingum”, sagði Agnar Helgason, mannfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu og einn höfunda greinarinnar. “Í þessari rannsókn tókst okkur hins vegar að púsla saman litningum Hans Jónatans, sem dó fyrir um 190 árum úr bútum sem afkomendur hans erfðu frá honum. Í einhverjum tilvikum gæti reynst gagnlegt að nota sambærilegar aðferðir til að endurskapa erfðamengi annarra einstaklinga frá þessum tíma, bæði á Íslandi og annars staðar, til að varpa ljósi á uppruna þeirra eða aðra eiginleika”.

“Saga Hans Jónatans er merkileg og uppörvandi”, sagði Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn höfunda greinarinnar. “Hann var fyrsti svarti maðurinn til að stíga fæti á Ísland og virðist hafa verið tekið með opnum örmum af heimamönnum á Djúpavogi og nærsveitum. Þessi viðbrögð Íslendinga frá byrjun 19. aldar, sem voru einangraðir og alls ekki veraldarvanir, sýnir að kynþáttafordómar eru ekki meðfæddir”.

Ítarefni:

Sérhver einstaklingur byrjar líf sitt sem okfruma, sem verður til við samruna eggfrumu frá móður og sæðisfrumu frá föður. Langflestir eiginleikar einstaklings ráðast af erfðauppskrift sem geymd er í litningunum sem fylgdu þessum frumum, þ.e.a.s. 23 litningum frá móður og 23 frá föður. Vegna endurröðunar við kynfrumumyndun, er sérhver litningur frá móður einskonar mósaík af þeim litningum sem hún erfði frá foreldrum sínum. Að sama skapi er sérhver litningur frá föður einskonar mósaík af þeim litningum sem hann erfði frá foreldrum sínum.

Í raun skiptir ekki máli hversu margar kynslóðir við rekjum aftur ættir einstaklings; það er alltaf hægt að líta á litninga hans sem mósaík af litningum þeirra forfeðra og formæðra sem þá voru uppi.

Með því að bera saman litninga margra afkomenda sama einstaklings, t.d. Hans Jónatans, er hægt að bera kennsl á þá litningabúta sem ættaðir eru frá honum. Þannig opnast möguleiki á að raða saman erfðamengi viðkomandi einstaklings. Vel gekk að finna litningabúta Hans Jónatans í afkomendum vegna þess að hann var eini forveri þeirra með nýlegan afrískan uppruna og tiltölulega auðvelt er að greina á milli afrískra og evrópskra litningabúta.

Upplýsingar veitir Guðmundur Einarsson 664 1820, gein@decode.is

Deila!