Með því að raðgreina erfðamengi eineggja tvíbura og bera þau saman við erfðamengi náinna skyldmenna þeirra gátu vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar fundið stökkbreytingar sem höfðu myndast snemma á fósturskeiði og greindu tvíburana að.

Þetta kemur fram í vísindagrein í Nature Genetics sem birtist í dag.

Yfirleitt hefur verið gengið út frá því að erfðamengi eineggja tvíbura séu eins og því hægt að nota þá til að aðgreina áhrif erfða og umhverfis á heilsu manna. En erfðamengi tvíbura eru svipuð en ekki eins þótt þeir verði til úr einu og sama frjóvgaða egginu.

Í greininni leituðu vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar að stökkbreytingum sem skilja á milli eineggja tvíbura á fyrstu dögum fóstursins þegar fóstrið samanstendur einungis af nokkrum frumum. Með því að raðgreina og skoða stökkbreytingarnar var hægt að rekja hvaða frumur mynda hvorn tvíbura fyrir sig. Við þetta komu í ljós tveir hópar tvíbura, annars vegar þeir sem deila stökkbreytingum og hinsvegar hópur þar sem stökkbreytingar einskorðast við annan hvorn tvíburann. „Þessir tveir hópar eineggja tvíbura gefa dýrmæta innsýn í þroska fósturs, skömmu eftir getnað,“ segir Hákon Jónsson visindamaður hjá Íslenskri erfðagreiningu og fyrsti höfundur greinarinnar „Þetta eru gríðarlega spennandi niðurstöður sem gefa vonir um að stökkbreytingar á fósturstigi geti varpað ljósi á þroskann snemma á fósturskeiði,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.

Deila!