Íslensk erfðagreining hefur lokið við að greina erfðaefni og C14 kolefnissamsætur úr höfuðskeljunum sem fundust undir gólffjölum í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í september. Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ræddu saman um möguleika þess að rannsaka uppruna beinanna með erfðagreiningu. Mannerfðafræðingarnir Agnar Helgason og Sunna Ebenesersdóttir kynntu niðurstöðurnar á blaðamannafundi í dag að viðstöddum forsætisráðherra.

Ráðherrabústaðurinn stendur við Tjarnargötu 32 við Reykjavíkur í miðbæ Reykjavíkur. Húsið var upphaflega reist á Sólbakka við Önundarfjörð árið 1892 en flutt til Reykjavíkur og endurbyggt af Hannesi Hafstein. fyrsta ráðherra Íslands sem flutti inn árið 1906. Húsið er í dag opinber embættisbústaður forsætisráðherra.

Á fundinum kom fram að það var lítið erfðaefni í höfuðskeljunum og það erfðaefni var mjög niðurbrotið. Það þurfti að greina mörg DNA sýni og raðgreina um tífallt meira en venjulega, en samt fékkst um 60 falt minna af DNA bútum til að draga ályktanir um eiganda beinanna. Það var þó nóg til að svara nokkrum lykilspurningum um þessa manneskju.

1. Hún var kona.

2. Hún var dönsk.

3. Hún virðist ekki eiga afkomendur eða ættingja á meðal núlifandi Íslendinga.

4. Hún á hins vegar ættingja í Danmörku og umfang skyldleika bendir til þess að hún hafi verið á lífi á 18.öld.

5. C14 aldursgreining bendir einnig til þess að hún hafi verið frá 18. öld.

6. Hún var að öllum líkindum með brún augu og brúnt hár.

7. Það fannst einnig erfðaefni úr fólki sem hafði handleikið höfuðskeljarnar fyrir mörgum áratugum. Þetta fólk var af íslenskum uppruna og aðallega karlkyns.

Á blaðamannafundinum varpaði Agnar Helgason fram þeirri tilgátu að höfuðkúpubrotin gætu verið úr Víkurkirkjugarði.

“Á 18.öld var töluvert um fólk af dönskum uppruna í Reykjavík. Hugsanlega var þessi kona þar á meðal. Það er mögulegt að hún hafi dáið hér og verið grafin í Víkurkirkjugarði, sem var staðsettur þar sem Fógetagarðurinn er nú og að hluta til þar sem gamla Landsímahúsið stóð. Hætt var að jarðsetja fólk þar um 1838, þegar Hólavallakirkjugarður var tekinn notkun. Oft komu bein upp úr jörðinni þegar byggt var á reit Víkurkirkjugarðar, og hugsanlega eru höfuðskeljarnar úr Ráðherrabústaðnum dæmi um það. En það er erfitt að vita hvers vegna þær enduðu undir gólffjölum Ráðherrabústaðsins.”

Deila!