Áhættuskor sem byggir einungis á mælingum þúsunda próteina úr einu blóðvökvasýni spáir fyrir um áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum af völdum æðakölkunar

Kári Stefánsson og Hannes Helgason einn höfunda greinarinnar.

Vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólk þeirra í Bandaríkjunum, Danmörku og á Íslandi, hafa notað gervigreind til þess þróa prótein-áhættuskor sem spáir fyrir um áföll tengd hjarta- og æðasjúkdómum af völdum æðakölkunar

Í læknaritinu The Journal of American Medical Association (JAMA), birtast í dag niðurstöður úr rannsókn Íslenskrar erfðgreiningar sem byggir á mælingum þúsunda eggjahvítuefna úr blóðvökvasýnum. Gervigreind var notuð til að hanna prótein-áhættuskor sem spáir fyrir um áföll tengd hjarta- og æðasjúkdómum af völdum æðakölkunar.

Rannsóknin byggir á sýnum úr 13.500 Íslendingum sem höfðu ekki fengið hjartaáfall eða heilablóðfall áður en blóðvökvasýni voru tekin og yfir 6.000 þátttakendum úr FOURIER lyfjarannsókninni sem höfðu flestir fengið hjartaáfall eða heilablóðfall. 5.000 mismunandi prótein voru mæld úr hverjum þátttakanda.

Prótein-áhættuskorið, spáir fyrir um áföll tengd hjarta- og æðasjúkdómum af völdum æðakölkunar án þess að sjúkrasaga eða aðrir þekktir áhættuþættir séu hafðir til hliðsjónar.

Þótt próteinin leiði í ljós ýmsa þekkta áhættuþætti sýnir áhættuskorið fram á áhættu sem er ekki hægt að rekja til þekktra áhættuþátta.

Ólíkt hefðbundnum áhættuþáttum eins og fjölskyldusögu og fyrri áföllum sem ekki er hægt að breyta hafa prótein-áhættuskor þann eiginleika að vera dýnamískur mælikvarði sem getur tekið breytingum eftir meðferð eins og til dæmis lyfjagjöf.

Einn af eiginleikum prótein-áhættuskora á rætur sínar í því. að magn próteina rís og hnígur sem fall af tíma til og frá heilsutengdum viðburðum. Þetta gerir vísindamönnum kleift að spá fyrir um tímasetningu atburða. Þetta gæti leitt til þess að prótein-áhættuskor verði mikilvæg tæki í lyfjarannsóknum til þess að meta virkni eða áhættu af lyfjagjöf fyrr en ella.

“Með prótein-áhættuskorinu gætum við verið komin með verkfæri til þess stytta tímann sem rannsóknir á meðferðarúrræðum taka og notað til þess færri þátttakendur en ella. Þar með yrði þróun nýrra lyfja ódýrari og gæti skilað sér fyrr til þeirra sem þarfnast þeirra. Að auki gæti þetta orðið mikilvægt fyrir forvarnir gegn hjarta- og æðasjúkdómum af völdum æðakölkunar,” segir Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar og einn þeirra sem leiddu rannsóknina.

Deila!