Fræðslufundur – Af hverju erum við að fitna? Upptaka frá fundinum.

Íslensk erfðagreining heldur opinn fræðslufund um offitu, laugardaginn 1. febrúar.

Kári Stefánsson læknir og erfðafræðingur ræðir um áhrif heilans á BMI. Afhverju bregst heilinn sem stjórntæki þegar við borðum of mikið og hreyfum okkur minna en við vitum að er æskilegt? Er offita kannski hegðunarvandamál eða geðsjúkdómur? Hann mun ennfremur  koma inn á fjölgenarannsóknir sem leiða í ljós að það er jákvætt val fyrir offitu, fólk sem er yfir kjörþyngd eignast fleiri börn þótt sú þyngdaraukning sem hefur átt sér stað á undanförnum áratugum skýrist líklega  fremur af breyttu mataræði og hreyfingarleysi.

Ragnar Bjarnason prófessor og yfirlæknir á LSH ætlar að velta upp orsökum þess að Íslendingar eru þyngstir allra Norðurlandabúa.

Tryggvi Helgason barnalæknir fjallar um hvernig þyngd barna er að þróast hér á landi. Hvert stefnum við? Hvað erum við að gera?  Og síðast en ekki síst,  hvað getum við gert meira til að snúa þessari þróun við?

Alma D. Möller landlæknir fjallar um verkefnið Heilsueflandi samfélag sem embættið vinnur að í samstarfi við sveitafélög og fleiri. Þá mun hún tæpa á aðgerðum sem vænlegar eru til árangurs gegn offitu og ræða áskoranir varðandi heilsu og heilbrigðisþjónustu.

Margir þekktir staðir í erfðamenginu hafa áhrif á þyngd okkar.

Þorgeir Þorgeirsson erfðafræðingur fjallar um erfðaþætti sem tengjast fíkn og offitu. Hann fjallar um hugtakið matarfíkn og veltir því upp hvort skýra megi vanda fólks við að stjórna þyngdinni að hluta til með áhrifum erfðaþátta sem tengjast fíkn í tóbak og vímuefni.

Fræðslufundurinn er haldinn í húsakynnum Íslenskrar erfðagreiningar og hefst klukkan 13. Allir eru velkomnir en húsið opnar 12.30.

Fundurinn verður sendur út beint á Facebook-síðu íslenskrar erfðagreiningar.

Deila!