Íslensk erfðagreining heldur fræðslufund fyrir almenning um ADHD, næstkomandi laugardag, 16. nóvember.

Haraldur Erlendsson

Þar mun Haraldur Erlendsson geðlæknir ræða um ADHD á Íslandi, fjölda greininga á fullorðnu fólki og hvernig þær hafa tekið breytingum. Hann veltir fyrir sér afhverju svona margir Íslendingar séu að greinast eða bíða eftir greiningu og skoðar einkenni ADHD og hvernig þau birtast í samfélaginu sem heild og hafa áhrif á daglegt líf okkar allra.

Inga Dóra Sigfúsdóttir

Inga Dóra Sigfúsdóttir prófessor greinir  frá fyrstu niðurstöðum nýrrar rannsóknar á ólíkri birtingarmynd ADHD hjá strákum og stelpum. Hærra hlutfall stráka en stelpna fær greiningu og lyf, strákarnir eru meira truflandi fyrir umhverfi sitt en stelpurnar leiðast frekar út í vímuefnaneyslu og aðra sjálfskaðandi hegðun.

Hreinn Stefánsson

Hreinn Stefánsson og Þorgeir Þorgeirsson erfðafræðingar hjá Íslenskri erfðagreiningu segja frá niðurstöðum alþjóðlegrar rannsóknar sem Íslensk erfðagreining á aðild að. Rannsóknin er sú fyrsta til að sýna fram á marktæk tengsl erfða og ADHD en alls fundust 12 svæði í erfðamenginu sem tengjast röskuninni.Einnig verður sagt frá rannsóknum sem sýna marktæka fylgni við vímuefnafíkn, reykingar og áfengisneyslu. Niðurstöðurnar gera það kleift að kanna hvað er sameiginlegt með erfðum ADHD, fíknar og ýmissa annarra eiginleika og sjúkdóma.

Margrét Pála Ólafsdóttir

Margrét Pála Ólafsdóttir frumkvöðull segir frá reynslu sinni af því að lifa með ADHD og fá greiningu á fullorðinsárum. Hún veltir fyrir sér hvort og þá hvernig ADHD hefur haft áhrif til góðs í hennar eigin lífi.

Kári Stefánsson

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar stýrir fundinum.
Allir eru velkomnir en fundurinn verður haldinn í húsi Íslenskrar erfðagreiningar, Sturlugötu 8, laugardaginn 16. nóvember, klukkan 13:00. Húsið opnar 12:30 en boðið er uppá kaffi og kleinur fyrir fundinn.

Streymt verður frá fundinum á Facebook-síðu Íslenskrar erfðagreiningar.

Hér má nálgast viðburðinn á Facebook.

Deila!