ÞEKKING Í ALLRA ÞÁGU

Með rannsóknum á erfðaefni Íslendinga leitar Íslensk erfðagreining orsaka margra alvarlegustu sjúkdóma sem hrjá mannkynið, svo sem krabbameina, hjartasjúkdóma og sykursýki.

Þegar erfðavísar finnast, sem tengjast sjúkdómum, opnast möguleikar til að bæta líf og heilsu.

VITNESKJAN GETUR NÝST TIL AÐ

auka skilning á eðli sjúkdóma og starfsemi mannslíkamans

finna fólk sem er í aukinni hættu á að veikjast af tilteknum sjúkdómum og leiðbeina því um viðeigandi læknismeðferð eða breytingar á lífsvenjum.

þróa ný og betri lyf

EKKI BARA SJÚKDÓMAR

Við rannsökum fleira en sjúkdóma. Erfðamengi mannsins getur varpað ljósi á ýmsar ráðgátur lífsins. Hvernig hugsum við? Hvernig eldumst við? Hvaðan komum við? Við þessum spurningum og fleiri leitar Íslensk erfðagreining svara. Þannig öflum við þekkingar sem getur skilað næstu kynslóðum betra lífi.
GRUNDVÖLLURINN ER ÞÁTTTAKA LANDSMANNA
Grundvöllurinn að árangri er lifandi áhugi landsmanna og vilji til að leggja sitt af mörkum.

Meir en 160.000 Íslendingar hafa tekið þátt í rannsóknum okkar og gefið lífsýni og samþykki til að upplýsingar um arfgerðir þeirra og heilsufar eða lífshætti séu notaðar. Persónuauðkenni eru dulkóðuð og aftengd einstaklingum. Allra gagna og lífsýna er gætt í traustum geymslum með öflugri öryggisvörslu.
Með Íslendingabók og þekkingu þjóðarinnar á sögu sinni, ættum og uppruna að vopni, hafa vísindamennirnir okkar síðan einstaka möguleika til að vinna úr þessum efnivið.

HAGNÝTING FYRIR HEILBRIGÐI
Og árangurinn hefur ekki látið á sér standa.

Íslensk erfðagreining hefur fundið fjölda erfðabreytileika sem tengjast sjúkdómum.

Uppgötvanir okkar gegna þegar mikilvægu hlutverki í vinnu öflugra lyfjafyrirtækja við þróun nýrra lyfja, m.a við kransæðasjúkdómum og Alzheimer.

Niðurstöðurnar hafa birst í meir en 400 greinum í helstu vísindatímaritum veraldar og vísindamenn okkar eru í hópi þeirra sem mest hefur verið vitnað til á heimsvísu á sviði sameindalíffræði og erfðafræði frá síðustu aldamótum.

Afrakstur rannsóknanna hefur þannig orðið þýðingarmikill þáttur framfara i líf- og læknisfræði á síðustu tveimur áratugum.

SAMSTARF HEIMA OG HEIMAN
Samverkafólk Íslenskrar erfðagreiningar er að finna víða, bæði innan lands og utan.

Fjöldi þess kemur frá íslenskum mennta- og heilbrigðisstofnunum, ekki síst læknadeild Háskóla Íslands og Landspítala. Við höfum einnig átt góða samvinnu við styrktarfélög og samtök sjúklinga og áhugafólks.

Við eigum stórt net erlendra samstarfsaðila við háskóla og sjúkrahús vestan hafs og austan og fjölmargir þeirra vinna hérlendis með okkur að verkefnum um lengri eða skemmri tíma.

OPIÐ HÚS

Við leggjum áherslu á að miðla þeirri kunnáttu sem verður til við rannsóknirnar.
Á vefsíðu Íslenskrar erfðagreiningar er að finna margskonar upplýsingar um eðli og erfðir sjúkdóma sem við erum að vinna við.
Eðli og erfðir sjúkdóma

OPNIR FRÆÐSLUFUNDIR

Við höldum opna fræðslufundi í samráði við samtök sjúklinga, þar sem læknar og erfðafræðingar skýra frá helstu niðurstöðum og hugsanlegri hagnýtingu þeirra til lækninga og fyrirbyggjandi aðgerða.
Um opna fræðslufundi

HEIMSÓKNIR

Hundruð gesta heimsækja okkur á hverju ári til að kynna sér starfsemina, innlendir og erlendir, frá skólum, félagasamtökum og rannsóknastofnunum.
ÓSKA EFTIR HEIMSÓKN
Árið 2003 opnaði Íslensk erfðagreining, í samvinnu við Friðrik Skúlason, endurgjaldslausan aðgang að Íslendingabók fyrir alla Íslendinga. Nú eru notendur yfir 200.000, og mánaðarlega fær Íslendingabók um 100.000 heimsóknir. Samtals verja Íslendingar yfir 12.000 klukkustundum á mánuði í að skoða ættir sínar í Íslendingabók.

ÞEKKING

Á þennan hátt skilum við þekkingu til baka til samfélagsins og þúsundanna sem taka þátt í rannsóknunum.

Í FARARBRODDI

Með stuðningi landsmanna og samstarfi vísindamanna Íslenskrar erfðagreiningar og starfsfólks háskóla og heilbrigðisstofnana hefur Ísland tekið forystu í rannsóknum á erfðafræði mannsins.

ERFÐASPEGILL ÞJÓÐAR