JÁEINDASKANNI

 

FRAMLEIÐSLUEININGIN KOMIN

FYRSTA SKÓFLUSTUNGAN

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala, tók 12. janúar 2016 fyrstu skóflustungu að húsnæði fyrir jáeindaskanna á spítalanum. Íslensk erfðagreining færði íslensku þjóðinni skannann að gjöf sem og allan tilheyrandi tækjakost og sérhæft húsnæði undir hann. Verðmæti gjafarinnar er rúmar 840 milljónir króna.

UM JÁEINDASKANNANN

Kári Stefánsson tilkynnti um það í byrjun ágúst 2015 að Íslensk erfðagreining hefði skuldbundið sig til að gefa íslensku þjóðinni jáeindaskanna til notkunar á Landspítalanum.
Í lok september 2015 stofnaði Íslensk erfðagreining sjálfseignarstofnunina Gjöf til þjóðar sem hefur það markmið að kaupa jáeindaskannann og einnig að byggja það hús sem mun hýsa tækið á Landspítalalóðinni. Hér á heimasíðunni er afrit af stofnskrá sjálfseignarstofnunarinn sem skýrir hver hennar tilgangur er. Að gefnu tilefni er bent á að engar kvaðir fylgja gjöfinni.
Jáeindaskanninn og tækjabúnaður sem honum fylgir

Jáeindaskanni er íslenska heitið á myndgreiningartæki sem kallast PET/CT á fræðimáli og er einkum notað til að greina og meta æxli í mannlíkamanum. Þessi tækni sá dagsins ljós á seinustu áratugum 20. aldar og olli miklum framförum í greiningu og meðhöndlun á krabbameinsæxlum en búnaðinn má einnig nota við greiningar á öðrum sjúkdómum.

Jáeindaskanninn varð til við samruna tveggja áður þekktra greiningartækja; annars vegar tölvusneiðmyndatækis sem er röntgentæki sem gerir okkur kleift að sjá og mynda innri líffæri sjúklings og hins vegar myndgreiningartækis sem greinir geislavirkar jáeindir frá efni sem sprautað er í sjúkling og safnast fyrir til dæmis í krabbameinsfrumum. Heiti tækisins er dregið af jáeindunum.

Jáeindaskannanum fylgir óhjákvæmilega mikill og flókinn búnaður sem notaður er til að framleiða geislavirk merkiefni í sérstakri lyfjaframleiðslustofu sem  er síðan sprautað í sjúklinginn. Sjúklingurinn sér aðeins jáeindaskannann en búnaðurinn er að öðru leyti aðeins aðgengilegur starfsfólki spítalans því framleiðsla og meðhöndlun geislavirkra efna er aðeins á færi þeirra sem fengið hafa til þess þjálfun.

Geislavirku efnin eru búin til í svokölluðum hringhraðli sem komið er fyrir í steinsteypum klefa neðanjarðar. Inni í hraðlinum er rafstraumur notaður til að auka hraða öreindar, og segulsvið til þess að halda henni á hringlaga braut. Öreindinni er skotið á efni sem umbreytist í geislavirka samsætu.

Geislavirka efnið er leitt inn í lyfjaframleiðslustofu þar sem það er sameinað efni með sækni í ákveðna vefi í líkamanum. Merkiefninu er sprautað er í sjúklinginn með vélmenni en áður en það er gert þarf að prófa það til þess að ganga úr skugga um allt sé fullkomlega rétt og hreinleiki og gæði eins og vera ber. Þær prófanir fara fram á gæðastjórnunarstofu við hlið framleiðslustofunnar.

Eftir að merkiefninu hefur verið sprautað í sjúklinginn þarf hann að liggja kyrr í um það bil klukkustund á meðan geislavirka efnið dreifist um líkamann og safnast fyrir í þeim krabbameinsæxlum sem kunna að vera í honum. Að því búnu fer sjúklingurinn í jáeindaskannann sem tekur myndir þar sem hægt er að greina þá staði þar sem að merkiefnið gefur frá sér jáeindir.

Geislavirkni efnisins dvínar hratt og eftir skamma stund er hún orðin svo lítil að ekki stafar hætta af henni.

Jákvæðnihúsið

Nauðsynlegt er að hanna og byggja sérstakt hús yfir jáeindaskannann og tækjabúnaðinn sem honum fylgir.  Framleiðsla og meðhöndlun geislavirkra efna er mjög vandmeðfarin og krefst ýtrustu aðgætni. Búa þarf þannig um hnútana að enginn verði fyrir hættulegri geislun. Merkiefnið sem sprautað er í sjúklinga verður framleitt í rannsóknarstofu sem fullnægir alþjóðlegum stöðlum um hreinleika. Húsnæðið rannsóknarstofunnar og allt sem í því verður þarf að vera eins hreint og frekast er unnt.

Til þess að tryggja hámarksnákvæmni við skömmtun lyfjanna er notað vélmenni en eftir að geislavirku lyfi hefur verið sprautað í sjúkling er hann geislavirkur skamma stund og því ber að forðast að starfsfólk og aðrir sjúklingar nálgist hann um of. Haga þarf innri skipan hússins í samræmi við það.  Geislaskammtur sjúklings veldur honum ekki skaða en rannsóknin er ákveðin af lækni í samræmi við ástand hans.  Eftir að myndir hafa verið teknar í jáeindaskannanum er reiknað með því að sjúklingur bíði um stund áður en hann yfirgefur staðinn á meðan geislavirkni hans dvínar.

Húsnæðið er sniðið í einu og öllu að tækjabúnaðinum, framleiðsluferli geislavirku lyfjanna og meðhöndlun sjúklinganna.  Án sérhannaðs húsnæðis eru tækin ekki nothæf.

Jáeindaskanninn og allt sem honum fylgir, þar með talið húsið, mynda órofa heild sem er gjöf ÍE til þjóðarinnar.

Gjöf Íslenskrar erfðagreiningar

Þann 12. ágúst 2015 lýsti Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, því yfir að fyrirtækið hygðist gefa þjóðinni jáeindaskanna með tilheyrandi búnaði og húsnæði.

Ráðuneytið fól Birni Zoega fyrrverandi forstjóra LSH að vera fulltrúi þess við undirbúning og framkvæmd, þ.e.a.s. val á tækjum ásamt hönnun húsnæðis og byggingu þess.

Hjörleifi Stefánssyni var falin yfirstjórn hönnunar og byggingaframkvæmda.

Frumhönnun húsnæðis

Settur var á fót vinnuhópur hönnuða og sérfræðinga LSH til að annast frumhönnun húsnæðisins.   Ákveðið var að leita til hönnuða sem hefðu unnið við byggingar LSH og hefðu nokkra þekkingu á þeim vandamálum glíma þyrfti við í húsi jáeindaskannans.  Samið var við ASK arkitekta, VSÓ um burðarþolshönnun, Mannvit um lagnir og loftræstingu og VJI um raflagnahönnun.   Fulltrúar LSH í hópnum voru Aðalsteinn Pálsson verkfræðingur, Magdalena Rós Guðnadóttir og Brynjar Vatnsdal Pálsson heilbrigðisverkfræðingar.

LSH hafði áður kannað lauslega hvar helst mætti koma við byggingu fyrir jáeindaskanna og voru tveir staðir helst taldir koma til greina;  viðbygging við G-álmu spítalans og viðbygging við K-álmu. Frumhönnunin var fólgin í því að kanna báða staðina og greina kosti þeirra og galla.

Þann 5. október 2015 skilaði vinnuhópurinn skýrslu sinni og í kjölfarið ákvað velferðarráðuneytið og LSH að byggt skyldi samkvæmt svonefndri G-tillögu, þar sem gert er ráð fyrir viðbyggingu við G-álmu spítalans.

Samstarfsyfirlýsing

Þann 18. september 2015 var undirrituð samstarfsyfirlýsing  velferðarráðuneytisins, Íslenskrar erfðagreiningar og Landspítala um byggingu húss fyrir jáeindaskanna við Landspítala og var yfirlýsingin hluti af frumhönnunarskýrslunni. Þar er kveðið nánar á um ýmsa þætti framkvæmdarinnar, m.a. að Íslensk erfðagreining ber allan kostnað af byggingu hússins en LSH ber kostnað af þeim breytingum sem gera þarf á húsnæði spítalans vegna framkvæmdarinnar.  Gert er ráð fyrir að 72% af heildarkostnaðinum falli til vegna nýbyggingarinnar og greiðist hann að fullu af ÍE.  Áætlað er að 28% af kostnaðinum sé vegna aðlögunar og breytinga á húsi LSH og greiðist sá hluti af spítalanum.

Hönnun og undirbúningur

Hönnun húsnæðisins hófst af fullum krafti þegar búið var að velja húsinu stað.

Í lok ágústmánaðar og byrjun september var rætt við fulltrúa helstu framleiðenda jáeindaskanna og annars búnaðar sem nauðsynlegur er.  Í byrjun desember var undirritaður samningur við General Electric um kaup á öllum búnaði auk ráðgjafar við bygginguna og þjálfunar starfsfólks.

Hönnunarvinnan fer fram í nánu samráði við verkefnisstjóra og tæknimenn á vegum GE.

Við lok frumhönnunar 22. 9. 2015 var áætlað að  húsið myndi kosta 263.600.000- kr. Innifalinn er kostnaður vegna breytinga og aðlögunar húss LSH.  Í byrjun febrúar 2016 þegar hönnun hússins var lengra á veg komin og framkvæmdir í þann mund að hefjast var ætlað að byggingaframkvæmdin myndi kosta 268.500.000- kr. Heildar fjárhæð gjafarinnar eru 6,5 milljónir Bandaríkjadala.

Framkvæmdir hefjast

Þann 12. janúar 2016 tók Páll Matthíasson forstjóri LSH fyrstu skóflustungu að jákvæðnihúsinu og þar með hófust byggingarframkvæmdir.  Samið var við Gunnar St. Ólafsson byggingarverkfræðing um að annast byggingarstjórn í skilningi byggingarreglugerðar og eftirlit með framkvæmdum. Jarðvegframkvæmdir voru boðnar út til þriggja verktaka. Fyrirtækið Grafa og grjót ehf. átti lægsta tilboðið og lauk verki sínu 25. janúar.

Næsti framkvæmdaáfangi er fólginn í uppsteypu hússins og frágang þess að utan. Verkið var boðið út til þriggja verktaka. Þarfaþing ehf. átti lægsta tilboðið og þegar hefur verið undirritaður samningur um verkið.

Byggingarleyfi fyrir húsinu var gefið út 22. febrúar og framkvæmdir hófust daginn eftir með því að steypt var þrifalag ofan á klöppina undir hringhraðalshúsinu.

Tímaáætlun um bygginguna

Áætlun um hönnun og byggingu hússins var gerð í nóvember 2015, áður en samningar höfðu verið undirritaðir um tækjakaupin og áður en að fullu var orðið ljóst hvert flækjustig byggingarinnar væri. Ákveðið var í upphafi að leitast við að hraða framkvæmdinni sem mest án þess þó að það bitni hvorki á gæðum hönnunar né hússins. Gert var ráð fyrir því að húsið yrði fullbúið um miðjan september 2016.